Femínistafélag Akureyrar

Thursday, April 06, 2006

Bréf til keppenda í Ungfrú Norðurland

Þann 18. mars var haldin fegurðarsamkeppni norðurlands í Sjallanum á Akureyri. Þessi keppni varð í raun kveikjan að stofnun Femínistafélagi Akureyrar. Við ákváðum að eitthvað þyrfti að gera til að vekja athygli á inntaki slíkrar keppni. Við ákváðum að útbúa bréf sem við sendum til stúlknanna sem tóku þátt og látum við bréfið, sem talar fyrir sig sjálft, fylgja með:

Þú ert falleg! Þú þarft ekki taka þátt í fegurðarsamkeppni til að vita það.

Nú þegar umræður um fegurðarsamkeppnir eru allsráðandi getur maður ekki annað en velt fyrir sér inntaki þeirra. Hverju nákvæmlega er verið að keppa í? Út frá hverju er verið að dæma? Hver hefur það guðdómlega vald til að segja til um það hvað sé fallegt og hvað ekki? Dómararnir sem dæma keppnirnar? Hafa þeir lokið skóla í fegurðarfræðum? Nei. Dómararnir eru bara eins og þú og ég. Venjulegt fólk sem er uppfullt af kreddulegum samfélagshugmyndum um staðlaða ímynd fegurðarinnar.

Kjarni málsins: Það er engin uppskrift sem að dómnefndin getur farið eftir í því hver sé fegurst. Maður gæti skilið það ef að sú sem grennist mest, er með mesta hárið eða getur labbað hraðast ynni. Þá væru fyrirfram gefnir staðlar sem stúlkurnar gætu allar unnið hörðum að. Allar stúlkurnar kæmu að keppninni á sama grundvelli og ættu allar jafn mikla möguleika. Eins og staðan er í dag þá er það bara huglægt mat hvers og eins dómara sem að ræður för.

Ert þú til í að láta það í hendurnar á ókunnugu fólki að segja til um hvort að þú sért nógu sæt eða ekki?

Fegurð þína er ekki mælanleg. Hún felst í þroska og góðri sjálfsímynd og fer einungis batnandi með árunum. Spurningin er ekki um fatastærðir, kílóafjölda, hæð eða háralit, heldur er hún spurning um að læra að elska sjálfa sig frá toppi til táar.

Þannig að: Líttu í spegil og ákveddu sjálf að þú ert falleg.

Feministafélag Akureyrar

-->

<< Home