Femínistafélag Akureyrar

Wednesday, September 27, 2006

150 ár frá fæðingu Bríetar

Í dag eru 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet var íslensk baráttukona sem barðist ötullega fyrir réttindum kvenna.

Bríet var ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags. Það var Bríet sem átti hugmyndina að stofnun Blaðamannafélagsins og hún var upphafsmaður að stofnun Kvenréttindafélags Íslands. Bríet var í framboði fyrir Kvennalistann og hlaut kosningu ásamt þremur öðrum frambjóðendum hans. Hún sat í bæjarstjórn milli 1908 og 1912 og aftur milli 1914 og 1920.
Að lokum má nefna að Bríet var einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar.
Þetta er ekki tæmandi listi af afrekum Bríetar en nóg til að gefa okkur skýra sýn á það að Bríet var sannkallað kjarnakvendi.

Á þessu ári eru einnig 66 ár liðin síðan að Bríet lést.
Það hefur margt áunnist á þeim tíma. Má þar helst nefna fæðingarorlof karla og aukna vitundarvakningu meðal almennings, að mínu mati. Umræðan hefur opnast og fólk er farið að gagnrýna meira hlutina í kringum sig í stað þess að taka þeim sem sjálfsögðum.
En við eigum ennþá langt í land til að fullu jafnrétti sé náð.
Enn í dag er launamunur á milli kynjanna. Enn í dag erum við með kynjaskipta vinnustaði. Enn í dag þykir eðlilegra að heimilið sé griðarstaður húsmóðurinnar frekar en húsföðursins. Enn í dag þykir eðlilegra að kona taki sér fæðingarorlof meðan að karlmaðurinn þarf oft að mæta fordómum á vinnustað. Og enn í dag tíðkast mannsal og vændi beint fyrir framan nefið á okkur. Þetta er eitthvað sem að kemur í okkar verkahring að breyta.

Þess má geta að undirrituð á einnig afmæli í dag. Ekki jafn stórt og Bríet. En þó.
Undirrituð vill þó afþakka allar gjafir og ætlar ekki að halda partí en óskar þess í stað að allir prófi að skipta um kynjahlutverk í dag.
Ég persónulega er yngst af fjórum systkinum og þar af eina stelpan. Ég var komin með slaufur í hárið og sérsaumaða kjóla á fæðingardeildinni. Við 5 ára aldur var ég farin að kynna mig sem Möggu prinsessu.

Ég ætla í dag að reyna að tileinka mér taktík sem hefur svolítið einkennt karlþjóðina, að mínu mati. Ég ætla að vera óhrædd við að segja mína skoðun á hlutunum, hafa trú á sjálfri mér og kannski, bara kannski veiða fisk með berum höndum.

Margrét Kristín Helgadóttir skrifar.
-->

<< Home