Femínistafélag Akureyrar

Sunday, April 30, 2006

1. maí

Jæja þetta er orðið ansi gott og langt páskafrí hjá okkur! :)

En á morgun er 1. maí og þá finnst okkur kjörið að minnast láglaunafólks í landinu. Feministafélag Íslands ætlar sérstaklega að minnast láglaunakvenna og fara í göngu með kröfuspjöld og vera með skemmtilegheit.

Okkur fannst alveg kjörið að apa eftir því og gera slíkt hið sama, nema hvað að það verður engin ganga í ár!
En við höfum samt hugsað okkur að mæta á hátíðarhöldin niður í bæ og hver veit nema við búim við eitt til tvö kröfuspjöld svona til gamans ;)

Annars er svo spurning hvað við gerum af okkur á 6. maí en þá er hinn skemmtilega "Megrunarlausi dagurinn."
Ég hvet ykkur til að fylgjast með hér á síðunni - Við gætum tekið upp á því að vera með eitthvað þann daginn okkur til fræðslu og skemmtunar.

Sjáumst hress á morgun í bænum!

P.s það hefur komið upp sú hugmynd að gera pásu á formlegum hluta félagsins svona yfir suamrtímann. Sem sagt að halda ekki reglulega fundi heldur bara vera dugleg að blogga hér inn og skrifa greinar. Þetta kemur til af því að mikill hluti félagsins er bundinn við skólana hér og fer út á landsbyggðina yfir sumarið. Stefnan er þá að koma á fundum aftur næsta haust og fara þá í skólana og kynna félagið.
Endilega segið ykkar skoðun á því.

Friday, April 14, 2006

Veist þú um einhvern sem á þau skilið?

Monday, April 10, 2006

Páskafríííííí

Nú er víst komið að hinu langþráða páskafríi í skólum bæjarins og í því tilefni ætlar Feministafélagið einnig að taka sér smá páskafrí :)
Þar sem að næsti fimmtudagur er Skírdagur og fimmtudagurinn þar á eftir er Sumardagurinn fyrsti þá verður páskapásan alveg í tvær vikur.
Við ætlum okkur að nýta þann tíma vel í páskaeggjaát og hugmyndavinnu og leggjum til að þið gerið slíkt hið sama :)

Sjáumst svo hress og kát eftir tvær vikur.

Gleðilega páska!

Thursday, April 06, 2006

Harma ummæli utanríkisráðherra um konur

Eftirfarandi eru ályktun sem Femínistafélag Akureyrar gaf frá sér eftir ummæli Geirs H. Haarde:

Femínistafélag Akureyrar harmar þau ummæli sem að ágætur utanríkisráðherra, Geir H. Haarde lét frá sér á fundi síðastliðið laugardagskvöld, þar sem hann ræddi um brottför hersins og þá möguleika sem við ættum í stöðunni. Geir notaði eftirfarandi samlíkingu: "Það er ekki alltaf hægt að fara heim með sætustu stelpunni á ballinu, en önnur gerir kannski sama gagn"

Feminstafélagi Akureyrar leikur forvitni á að vita hvað hæstvirtur utanríkisráðherra átti við með þessari samlíkingu. Sem ráðamaður þjóðarinnar á Geir H. Haarde að gæta orða sinna og vera öðrum til fyrirmyndar. Feministafélag Akureyrar vill benda honum á að klaufalegt orðalag hans gerir ekki einungis lítið úr konum heldur líka honum sjálfum.

Bréf til keppenda í Ungfrú Norðurland

Þann 18. mars var haldin fegurðarsamkeppni norðurlands í Sjallanum á Akureyri. Þessi keppni varð í raun kveikjan að stofnun Femínistafélagi Akureyrar. Við ákváðum að eitthvað þyrfti að gera til að vekja athygli á inntaki slíkrar keppni. Við ákváðum að útbúa bréf sem við sendum til stúlknanna sem tóku þátt og látum við bréfið, sem talar fyrir sig sjálft, fylgja með:

Þú ert falleg! Þú þarft ekki taka þátt í fegurðarsamkeppni til að vita það.

Nú þegar umræður um fegurðarsamkeppnir eru allsráðandi getur maður ekki annað en velt fyrir sér inntaki þeirra. Hverju nákvæmlega er verið að keppa í? Út frá hverju er verið að dæma? Hver hefur það guðdómlega vald til að segja til um það hvað sé fallegt og hvað ekki? Dómararnir sem dæma keppnirnar? Hafa þeir lokið skóla í fegurðarfræðum? Nei. Dómararnir eru bara eins og þú og ég. Venjulegt fólk sem er uppfullt af kreddulegum samfélagshugmyndum um staðlaða ímynd fegurðarinnar.

Kjarni málsins: Það er engin uppskrift sem að dómnefndin getur farið eftir í því hver sé fegurst. Maður gæti skilið það ef að sú sem grennist mest, er með mesta hárið eða getur labbað hraðast ynni. Þá væru fyrirfram gefnir staðlar sem stúlkurnar gætu allar unnið hörðum að. Allar stúlkurnar kæmu að keppninni á sama grundvelli og ættu allar jafn mikla möguleika. Eins og staðan er í dag þá er það bara huglægt mat hvers og eins dómara sem að ræður för.

Ert þú til í að láta það í hendurnar á ókunnugu fólki að segja til um hvort að þú sért nógu sæt eða ekki?

Fegurð þína er ekki mælanleg. Hún felst í þroska og góðri sjálfsímynd og fer einungis batnandi með árunum. Spurningin er ekki um fatastærðir, kílóafjölda, hæð eða háralit, heldur er hún spurning um að læra að elska sjálfa sig frá toppi til táar.

Þannig að: Líttu í spegil og ákveddu sjálf að þú ert falleg.

Feministafélag Akureyrar

Wednesday, April 05, 2006

Fundur 6. apríl

Fundurinn 6. apríl - annað kvöld - fellur niður vegna aðalfundar Félags Félagssvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri.

Næsti fundur verður fimmtudaginn eftir viku og þá klukkan 21 á sama stað og venjulega.

Saturday, April 01, 2006

Síðasti fundur

Á síðasta fundi vorum við að ræða um staðalímyndir og í kjölfarið af því fegurðarsamkeppnir og líkar keppnir. Mikið var rætt um nýlegan þátt á Sirkus sem nefnist Bikinimodel 2006 og virðist snúast mikið um það að sýna brjóst og drekka áfengi.
Við ræddum það hvernig hægt væri að snúa þessari þróun við? Þar sem fólk er hlutgert og gert sem söluvænst.

Við ræddum einnig þessa bloggsíðu. Það að við ætlum að reyna að vera dugleg að koma með nýjar greinar og upplýsingar hér inn reglulega.

Annars er næstu fundur á Parken klukkan 21 næsta fimmtudag ;)