Femínistafélag Akureyrar

Wednesday, September 27, 2006

150 ár frá fæðingu Bríetar

Í dag eru 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet var íslensk baráttukona sem barðist ötullega fyrir réttindum kvenna.

Bríet var ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags. Það var Bríet sem átti hugmyndina að stofnun Blaðamannafélagsins og hún var upphafsmaður að stofnun Kvenréttindafélags Íslands. Bríet var í framboði fyrir Kvennalistann og hlaut kosningu ásamt þremur öðrum frambjóðendum hans. Hún sat í bæjarstjórn milli 1908 og 1912 og aftur milli 1914 og 1920.
Að lokum má nefna að Bríet var einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsóknar.
Þetta er ekki tæmandi listi af afrekum Bríetar en nóg til að gefa okkur skýra sýn á það að Bríet var sannkallað kjarnakvendi.

Á þessu ári eru einnig 66 ár liðin síðan að Bríet lést.
Það hefur margt áunnist á þeim tíma. Má þar helst nefna fæðingarorlof karla og aukna vitundarvakningu meðal almennings, að mínu mati. Umræðan hefur opnast og fólk er farið að gagnrýna meira hlutina í kringum sig í stað þess að taka þeim sem sjálfsögðum.
En við eigum ennþá langt í land til að fullu jafnrétti sé náð.
Enn í dag er launamunur á milli kynjanna. Enn í dag erum við með kynjaskipta vinnustaði. Enn í dag þykir eðlilegra að heimilið sé griðarstaður húsmóðurinnar frekar en húsföðursins. Enn í dag þykir eðlilegra að kona taki sér fæðingarorlof meðan að karlmaðurinn þarf oft að mæta fordómum á vinnustað. Og enn í dag tíðkast mannsal og vændi beint fyrir framan nefið á okkur. Þetta er eitthvað sem að kemur í okkar verkahring að breyta.

Þess má geta að undirrituð á einnig afmæli í dag. Ekki jafn stórt og Bríet. En þó.
Undirrituð vill þó afþakka allar gjafir og ætlar ekki að halda partí en óskar þess í stað að allir prófi að skipta um kynjahlutverk í dag.
Ég persónulega er yngst af fjórum systkinum og þar af eina stelpan. Ég var komin með slaufur í hárið og sérsaumaða kjóla á fæðingardeildinni. Við 5 ára aldur var ég farin að kynna mig sem Möggu prinsessu.

Ég ætla í dag að reyna að tileinka mér taktík sem hefur svolítið einkennt karlþjóðina, að mínu mati. Ég ætla að vera óhrædd við að segja mína skoðun á hlutunum, hafa trú á sjálfri mér og kannski, bara kannski veiða fisk með berum höndum.

Margrét Kristín Helgadóttir skrifar.

Wednesday, September 06, 2006

Bók sem vert er að lesa!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, sem er prófessor við Háskólann á Akureyri, var að gefa út bókina, "Karlmenn og jafnréttisuppeldi."

En eins og stendur aftan á bókinni; " Á undanförnum árum hefur vaxandi umræða verið um stöðu drengja í skólum, karlmennsku og áhrif aukins jafnréttis kynjanna á sjálfsmynd drengja og karla. Í þessari bók eru fræðilegar kenningar og rannsóknir nýttar til þess að leggja fram raunhæfar tillögur um jafnréttisuppeldi drengja. "

Kíkjið á hana.

Lata stelpan

Eftirfarandi er tekið orðrétt af heimasíðu Ungfem; www.ungfem.blogspot.com:

" Lata stelpan er feminískt vefrit. Nafnið vísar til bókar eftir Emil Ludvik. Í upphafi bókarinnar er aðalpersónan illa þrifin og hugsar lítið sem ekkert um húsverkin. Kötturinn hennar neyðir hana í meikóver og eftir það breytist hún í ofurhúsmóður. Ritstjórn Lötu stelpunnar finnst sagan táknræn fyrir kraftinn sem samfélagið setur í að uppfylla staðalímyndir. Pennar vefsíðunnar leita fjölbreyttra leiða til að koma á kynjajafnrétti og miðla þeim hér. Ritstjórnin fékk styrk frá Hinu húsinu til skapandi sumarstarfs. Við kunnum Hinu húsinu bestu þakkir fyrir. Ef þú vilt hafa samband sendu þá tölvubréf á latastelpan@gmail.com."

Allir að kíkja! http://www.latastelpan.is/

Ég er neðanberi

Fyrir þá sem hafa í hyggju að gerast meðlimir í Neðanbera Klúbbi Hennar Hátignar vil ég segja að reglurnar eru þessar:
Verið í fínum fötum að ofan.
Farið úr ÖLLU að neðan.
Verið loðin og náttúruleg, helst fram úr hófi.
Aldrei, aldrei, aldrei gera þetta í kynferðislegum tilgangi.
Aldrei, aldrei, aldrei vera sexý.
Í þessu ástandi má helst ekki ræða neitt nema pólitík og bókmenntir, ekki má víkja einu orði að lágmenningu og kynlífi.
Alls ekki má undir nokkrum kringumstæðum dilla mjöðmunum á eggjandi hátt.
Blátt bann er lagt við söng. Undantekningar eru þó gerðar við þessa reglu ef um ræðir pólitíska baráttusöngva, en þá á að syngja í megafón, ekki í míkrófón.
Hafið húmor fyrir sérkennilegum ljótleika kynfæra ykkar.

Þið eruð fallegt fólk þegar á heildina er litið.

Góðar stundir.

(Tekið af www.vilborgo.blogspot.com.)

Starfið hafið

Jæja þá var fyrsti fundur vetrarins haldinn í gærkveldi.
Við hittumst á kaffihúsinu Amour hér í bæ klukkan 20 og það var bara nokkuð góð mæting. Mörg ný andlit og nýjar hugmyndir.
Á fundinum var ákveðið að fyrsta starf félagsins í vetur yrði að kynna starf okkar og hugmyndir. Rætt var um að fara í framhaldsskólana og jafnvel efstu bekki grunnskólanna. Einnig að fara í það að hengja upp auglýsingar og einfaldlega að spread the word.

Ýmsar hugmyndir komu upp í gær; eins og hvert við sjáum félagið stefna og hvað við viljum gera.

Við viljum endilega hvetja sem flesta til að taka þátt. Þið getið skráð ykkur í félagið með að senda póst á femakureyri@gmail.com og þá eruð þið komin í póstgrúbbu og fáið fréttir af því sem við erum að gera hverju sinni.

Ákveðið var að hafa fundi annan hvern þriðjudag og verður því næsti fundur þriðjudaginn 19. september kl. 20, og ætli hann verði ekki bara á Amour.

Ef þið hafið einhverjar skoðanir, sögur, pistla eða hugsun varðandi jafnrétti og/eða feminisma, endilega sendið það á ofangreint e-mail og við birtum það.